Sýn og stefna
Hermikennsla grundvallast á aðferðafræði - ekki tæknibúnaði, sem er ætlað að líkja eftir raunverulegum aðstæðum, aðgerðum eða inngripum í öruggu námsumhverfi, með leiðbeinanda án þess að heilsu sjúklings sé stefnt í hættu. Hermikennsla er gjarnan studd með tækni, leikmunum, búnaði, sýndarsjúklingum til að herma sem best eftir raunheimum.
Færni- og hermisetur byggja á þremur lykil þáttum. Í fyrsta lagi, hæfir og vel þjálfaðir kennarar. Í öðru lagi öflug kennsluaðstaða, og þriðja lagi sérhæfður tækni-kennslubúnaður. Huga þarf að öllum þessum þremur þáttum og byggja upp samtímis. Megin markmið HermÍs verkefnisins er að stórefla færni- og hermikennslu í heilbrigðisvísinum.
Sú megin sýn sem unnið er útfrá í HermÍs verkefninu er að hermikennsla er árangursrík og skilvirk kennsluaðferð sem eykur öryggi sjúklinga. Í sérhönnuðu færni- og hermisetri er hægt að kenna nemendum og heilbrigðisstarfsfólki jafnt flókin og margþætt viðfangsefni.
Með tæknistuddri kennslu er hægt að æfa nánast öll inngrip sem framkvæmd eru á heilbrigðistofnunum. Hægt er að stjórna erfiðleikastigi viðfangsefna í samræmi við getu og þarfir þátttakenda, sem og endurtaka æfingar/verkefni eins oft og þörf krefur. Með HermÍs verkefninu skapast möguleiki að Ísland verði leiðandi í færni- og hermikennslu í heilbrigðisvísindum.