Um HermÍs

Um HermÍs

Image
Hermi- og færnisetur

Um HermÍs

Samstarf um þróun

Setrið samanstendur af fjölnota verklegum kennslurýmum, staðsett á 2. hæð í Eirbergi við Eiríksgötu. Í Eirbergi er einnig til staðar færnisetur hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar HÍ. Samanlagt er kennslurými fyrir verklega kennslu í Eirbergi um 500m2. Menntadeild Landspítalans er einnig með kennslusetur í kjallara Skaftahlíðar 24, en þar er fyrirlestrasalur og fjórar færnistofur.

Hagnýtar upplýsingar um Eirberg 

HermÍs er samstarfs- og þróunarverkefni Heilbrigðisvísindasviðs HÍ og menntadeildar Landspítalans, sem varð til útfrá samstarfssjóði háskóla á vegum Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins, auk fjárframlags frá heilbrigðisráðuneytinu. 

Image
Hermís

Samlegðaráhrif 

Samlegðaráhrif fyrir mennta- og heilbrigðisstofnun með sameiginlegri starfsemi færni- og hermiseturs er mikil. Má þar nefna:

  • betri nýting á kennslurými,
  • kerfisbundin uppbygging og nýting á dýrum kennslubúnaði,
  • samnýting á starfsfólki,
  • sameiginleg þróun á umgjörð kennsluaðferða

Að auki er augljós ávinningur af því að nemendur læra af og þjálfast með reynslumiklu heilbrigðisstarfsfólki. Á móti kemur ávinningur fyrir heilbrigðisstafsfólk að læra það nýjasta í fræðunum í gegnum nemendur í akademísku námi.

Image
Hermi- og færnisetur

Uppruni og aðdragandi

Með aukinni áherslu á nútímalegar, tæknistuddar og skilvirkari kennsluaðferðir hefur skapast aukin þörf fyrir verklegt kennslurými í heilbrigðisvísindum. Á sama tíma hefur nemendum í heilbrigðisvísindum fjölgað umtalsvert, sem hefur valdið því að snúið hefur reynst að koma klínískri kennslu fyrir inn á heilbrigðisstofunum. Þá hefur umfang færni- og hermikennslu sem liður í starfsþróun og símenntum heilbrigðisstarfsfólks aukist mikið. Af þessum ástæðum hefur þörfin fyrir aukið kennslurými aukist verulega. 

Undirbúningsvinna fyrir HermÍs hófst á vormánuðum 2023. Ráðist var í framkvæmdir við að breyta 2. hæð í Eirbergi sumarið 2023. Uppbygging á HermÍs verkefninu er flókin og margþætt. Huga þurfti að ólíkum þörfum væntanlegra notenda, þróun kennslurýmisins, nýjungum í kennslubúnaði og fjölda/hæfi kennara.

Kennslurýmið í HermÍs er hannað með margþætta verklega kennslu í huga. Hægt er breyta uppsetningu á rýminu og aðlaga að ólíkum kennsluþörfum sérgreina í heilbrigðisvísindum. Í setrinu er hugsað til framtíðar og setrið hannað með nýstárlegar kennsluaðferðir í huga, eins og sýndarveruleika og skjáhermingu. HermÍs er hugsað fyrir alla heilbrigðisvísindanemendur og allt heilbrigðisstarfsfólk.

Kennsla í HermÍs hófst formlega í janúar 2024.